Skandali, fyrir okkur hin.

Að lesa heiminn

Að lesa heiminn

undir fána.png

Um spegil tímans og mikilvægi grúskara (en annars gagnslausar vangaveltur um sögu, samtíð og Spænska borgarastríðið)

eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

„Það er erfiðara að skilja samtíð sína en yfirvinna borgir,“ segir meistari Þórbergur í Bréfi til Láru (XXVIII. kafla). Í þeirri nánast ómögulegu íþrótt sem Þ.Þ. vísar til hefur maðurinn um aldabil reynt að styðja fingri á þá róstursömu tíma sem hann lifir með því   að rannsaka fortíðina; rýna í spegil sögunnar. „Sagan endurtekur sig,“ er annað stef sem gengur einsog rauður háðsþráður gegnum Bréfið þvert og endilangt.

Ég  las nýútkomna  bók sem fékk mig  til þess að hugsa um dagana  – þá undarlegu daga sem við lifum.  Hún fékk mig til þess að hugsa í fortíð og nútíð, eflaust merkir það að bókin hafi verið góð. Þetta er samt ekki ritdómur, nema kannski að hálfu leyti, en samt meira svona gagnslausar vangaveltur. Bókin heitir Undir  fána lýðveldisins; Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni og er eftir Hallgrím nokkurn Hallgrímsson. Tæplega þrítugur að aldri, í lok árs 1937, hélt hann til Spánar og barðist sjálfviljugur í fremstu víglínu spænsku borgarastyrjaldarinnar með alþjóðasveitum kommúnista (International  brigades). Hann er semsagt í þeim ágæta flokki manna sem börðust gegn innrásarher fasista á Spáni í nafni frelsisins, „dýrustu  hugsjón mannsins“ einsog segir í  bókinni, og skrifaði síðan bók um upplifun sína líkt og George Orwell, Ernest Hemingway o.fl.

Undir fána lýðveldisins kom fyrst út árið 1941 í takmörkuðu upplagi og má segja að hún hafi fallið í grýttan jarðveg, hreinlega grafist undir holskeflu tímans. Fyrir þessu eru margvíslegar ástæður. Í fyrsta lagi stóð Heimsstyrjöldin síðari í algleymi og íslensk fréttablöð hnausþykk af stríðslýsingum, frásögnum af blóðsúthellingum, loftárásum og öllum þeim harmi og ömurleika sem fylgir styrjöldum (svo frá sé talinn áróðurinn). Íslensk alþýða kaus fremur að týna sér í nýrómantískum sveitasögum, hverfa aftur til átthaganna, heldur en að lesa ítarlegar frásagnir af stríði og dauða undir náttlampanum. Í öðru lagi má færa rök fyrir því að mál- og skoðanafrelsi hafi verið fótum troðið á stríðsárunum, enda skrifaði Hallgrímur bókina í fangaklefa. Þar var honum stungið inn vegna „landráða“. Hann þýddi yfir á ensku og dreifði bréfi sem hvatti óbreytta hermenn setuliðsins breska að standa með íslenskum verkalýð í kjarabaráttu sinni með því að ganga ekki í störf þeirra meðan verkföll stóðu yfir. Ég hef ekki orðaheimildina til þess  að fjalla um „Dreifibréfsmálið“ svonefnda hér, en nánari upplýsingar um það má finna í ítarlegum og greinargóðum eftirmála nýju útgáfunnar, rituðum af þeim Einari Kára Jóhannssyni og Styrmi Dýrfjörð (sjá einnig: Mannasiðir, grein eftir H.K. Laxness frá 1941, birtist fyrst í Vettvángi dagsins (1942) og nú síðast í Landkostum (2018)). Í þriðja lagi var bókin, sem fyrr  segir, prentuð í takmörkuðu upplagi. Kannski eru þetta örfáar skýringar á því hvers vegna þessi magnaða frásögn hins unga,  róttæka öreiga féll í gleymskunnar dá eftir fyrri útgáfu hennar,  og fæstir virtust þekkja ef frá er talin hin sífellt vanmetna manntegund sérvitringra og grúskara.

Endurútgáfa bókarinnar eru merkileg tíðindi að mínu mati. Þetta er fyrsta útgáfa Unu útgáfuhúss, kraftmikils  forlags sem sett  var á laggirnar fyrr  á árinu (fram skal tekið  að ég tengist þeirri starfsemi ekki vitund). Fyrir henni stendur ungt hugsjónafólk, einsog Hallgrímur, nema þau láta ekki sverfa til stáls heldur ráðast í vandaða útgáfu á merkilegum ritum: „Þar sem  bókvitið skortir, taka vopnin við.“ Skemmtilegast finnst mér þó að hér er verið að hnekkja hinni margtuggðu mýtu almúgans að ungt fólk lesi sér ekki til gagns og gamans, en sú umræða er kapítuli útaf fyrir sig. Nafngiftin er sótt í hið merka Unuhús við Garðastræti sem á fyrri hluta síðustu aldar var athvarf skálda og listafólks, stað sem bæði var sóttur stíft og lofaður í hástert af spámönnum á borð við Halldór Laxness, Stefán frá Hvítadal, Nínu Tryggvadóttur, Stein Steinarr og títtnefndum Þórberg Þórðarson.

Það  má með  sanni segja  að bók þessi  hafi gengið gegnum endurnýjun  lífdaga, enda tekið fádæma vel  af nýrri kynslóð lesenda. Spegill  tímans spilar þar ugglaust stórt hlutverk,  og það er einmitt sú klisjukennda ljóðræna sem  leitaði á mig við lestur hennar. Líkt og Hallgrímur  lifum við róstursama tíma; tíma harðrar stétta- og mannréttindabaráttu, í víðasta skilningi þess  orðs. Þegar þetta greinarkorn er skrifað eru yfirvofandi verkföll í öllum afkimum þjóðfélagsins. Eins hafa mótmælendur, íslenskir sem erlendir, staðið sólarhringum saman, í öllum veðráttum, á Austurvelli og krafist mannúðar, mannsæmandi  kjara, áheyrnar, skilnings  og biðlað til hinna æðri jarðnesku  máttarvalda að hugsa betur um menn og  jörð. Þetta er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum,  eða réttara sagt ein afleiðing stirðs hugarfars og afturhaldsáráttu. Sem óhjákvæmilegt  virðist vera í slíkum hræringum, sætir einnig róttækni á báðum (eða öllum) jöðrum.  Þetta virðist vera lögmál. Þjóðfélagsumræðan er við suðumark nú sem á fjórða áratugnum; listir ýmist blómstra eða falla sem loftsprengjur á háborgir hagsmunaafla, og svona mætti lengi áfram telja.

„Spánarstríðið“ var flókin styrjöld, hreint ekki ólík ófriðnum á Sýrlandi um þessar mundir. Á víglínum Sýrlands í dag, einsog á   Spáni þá, standa alls kyns þjóðarbrot og pólitískir- eða hugmyndafræðilegir hagsmunahópar gráir fyrir járnum (Katalónar  og Baskar, verkalýðsfélög og anarkistar, lýðveldissinnar og alþjóðasveitir sjálfboðaliða, fasistar og falangistar, þjóðernissinnar og Marokkómenn á Spáni; uppreisnarmenn og frelsisher, Sjía og  Súnní múslimar, Kúrdar og Tyrkir, alþjóðasveitir og margvíslegir öfgahópar, stuðningsmenn „gamla“ þjóðskipulagsins, þ.e. ógnarstjórn Bashar al-Assad á Sýrlandi). Síðan hólka stórveldin  sig á bakvið aðra hvora fylkinguna, kannski undir fölskum formerkjum, ég legg ekki út í þá sálma hér. En í grunninn er það hið sama, hvimleiða lögmál og ævinlega sem ræður ríkjum í báðum deilum; framsókn gegn afturhaldi (sbr. III. kafla í Bréfi til Láru, svo ég leyfi mér enn að varpa Þórbergi hér niður, hann er mér mjög hugleikinn þessa dagana). Að lokum má  nefna  hinn nafntogaða  Hauk Hilmarson heitinn,  „okkar“ fulltrúa á Sýrlandi,  en margt má finna líkt með honum  og Hallgrími Hallgrímssyni annað en upphafsstafina.

Af  frásögnum  úr Spænska  borgarastríðinu  að dæma, má draga þá ályktun að varnarher lýðræðisins vissi upp á hár hver tilgangur  baráttunnar væri. Þetta var hápólitískt stríð, hugsjónastríð jafnvel. Sjálfboðaliðar  frá öllum hornum Evrópu og víðar voru tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn, falla fyrir frelsi og mannréttindum,  tjáningar- og hugsanafrelsi, til þess að stöðva útbreiðslu ógnarstjórnar og einræðis. Fjórði áratugurinn er tími Rauðra  penna og  sósíalraunsæis.  Alþýðan krafðist  mannúðar, barðist fyrir  mannsæmandi kjörum, þráði  áheyrn og skilning. Þetta hljómar   allt mjög kunnuglega. Sem aldrei   fyrr var listsköpun barátta fyrir lífi og dauða, enda lygilegar þjóðfélags- hræringar átt sér stað á aðeins þremur áratugum. Stefan Zweig (1881-1942)  kvað sína kynslóð hafa lifað margra mannsaldra virði af sviptingum, og jafnframt að hún hafi lifað þrjár ólíkar heimsmyndir. Þetta skrifaði hann  um miðbik seinna stríðs, í formála sinnar síðustu bókar, Veröld sem var. Honum var mikið niðri fyrir. Hann hafði misst trú á mannkynið. Hann sá í hvað stefndi  og lauk við gerð bókarinnar sem landflóttamaður í Brasilíu. Hann nennti ekki ýkja  mikið að skrifa hana en gerði það fyrir fararheil komandi kynslóða: Ekki  gera sömu  mistök aftur!   Síðan   lagði hann   frá sér pennann   við hlið þykkra blaðastafla  af fullloknu meistaraverki og sendi  handritið með pósti til útgefanda. Daginn eftir sótti hann sér tvær handfyllir af sterkum þunglyndislyfjum, eina fyrir sig, aðra fyrir konu sína, og þau skáluðu. Lík þeirra héldust í hendur þegar þau fundust.

Svona mætti lengi dunda sér við að finna líkindi með vorum dögum  og fjórða áratugnum, en því verkefni fel ég sagnfræð- ingum og fólki hæfara til verksins en undirritaður. Þetta eru jú aðeins  gagnslausar vangaveltur. En fögnum því að til er fólk sem berst í bökkum við að dýpka heimsskilning þeirrar kynslóðar sem nú byggir jörðina, rétta okkur spegilinn á formi bókmennta og annarra listgreina. Listin getur verið skopleg en hún  er samt ekkert grín. Listin er meira en dægradvöl og lífsgæði, hún er lífsskilyrði og nauðsyn. Allt of margir eru ólæsir, og þá á ég ekki við á bókfell heldur ólæsir á heiminn. Lærum að lesa heiminn áður en við eyðileggjum hann  eða ofbjóðum jörðinni, í sviphendingu getur hún hrækt okkur af yfirborði sínu einsog slími í kjafti.

Að  lokum  vill ég  tileinka grein  þessa öllum þeim  sérvitr- ingum og grúskurum sem vinna óeigingjarnt starf, stinga sér á kaf  í fornbókasölur og rykfallnar tímakistur í því skyni að tendra nýja    ljósglætu í húmleitum    vistarverum hugans. Sérstaka  kveðju fær allt fólkið  sem blóðgast, svitnar og  tárast við að hlaða stökkpalla og reisa brýr fyrir áður óþekkt listafólk sem sviðnar undan loganum í iðrum sér.

Reykjavík í mars 2019, Aðalsteinn E. Aðalsteinsson


Hver voru atómskáldin?

Hver voru atómskáldin?