Skandali, fyrir okkur hin.

Hver voru atómskáldin?

Hver voru atómskáldin?

Ægir Þór

Ég veit það. Það er að segja, ég veit hvað þeir einstaklingar nefndust sem hent var saman í flokka og útnefnir atómskáld. Einingaskáld sundrungaaldar. En það er ekki spurningin.

Þetta er ekki sögulegt yfirlit eða fræðileg greinargerð. Köllum þetta heimspekilega vangaveltu. Eitthvað svona sem maður tekur sér fyrir hendur þegar maður ætti að vera að sinna þarfari verkefnum.

Förum yfir það sem við vitum. Í kringum 1950 og eftir taka viss skáld uppá því að fara óhefðbundnar leiðir. Láta formfasta bragfræði góssi, skrifa órökrétt og leyfa illskiljanlegum myndum að flæða yfir textann. Texta sem oft er brotakenndur, myndir án sögu eða samhengis, slitrur úr ...

Gjarnan voru þess skáld úthrópuð. Stíllinn þótti hin mesta hneisa, þjóðfélagslýti, jafnvel jaðra við landráð. Hvar eru stuðlarnir, höfuðstafir og endarím?! æpti óþveginn lýðurinn sem svo lengi hafði ekkert átt að ilja sér við annað en fornar bókmenntir á skinntjutlum. Þetta var ekkert nema bölvuð sjálfselska og nasasýn að ætla sér annað en skapa fleiri óhlutbundin meistaraverk fyrir bóndadurga að skeina sér með.

Hver dirfist að yrkja málið aðeins á eigin landskika? Þvílíkur níhilismi þessir tómhyggjuprestar kjarnorkualdar. Atómskáld uppnefni ég þá. Og góð er sú nafngift því ekki einungis vísar hún í eyðingarmátt atómbombunnar heldur er atóm vitaskuld komið úr grískunni og merkir það sem ekki deilist, stakið. Þessi leirburður þeirra er ekkert nema orð á stangli. Tóm stök. Aha. A-tóm. Tómt tóm. Tóm kennt við upphafið, A. Þau komast hvergi lengra þessi skáld, dæmd til að hjakka endalaust í sama farinu, á upphafsreit. Ahh.

Þetta vitum við.

Atómið er auðvitað byggingarefni allra flóknari formgerða. Því er kannski ekki að undra að skammarheitið hafi fljótlega breyst í nokkuð sem menn gátu borið með höfuðið hátt. Ekki það að margir hafi viljandi nefnt sig atómskáld. Það er jú venjan með slíkar nafngiftir að þær eru þeim algerlega óviðkomandi sem skýrðir eru svo.

Svo hver voru atómskáldin?

Skáldskapur er í eðli sínu brot. Allt er brot, en ljóð frekar en flest. Hver sá sem segir þér annað er annaðhvort að misskilja eða hefur tekist það sem engum öðrum hefur tekist í mannkynssögunni og púslað saman heilsteyptri heimsmynd í eitt skipti fyrir öll.

Náttúra tilvistarinnar er flæði. Eilífur hreyfanleiki sem aðeins myndar skammær form, hverra hnit líða fyrr en varir úr tengslum svo spilaborgir hrynja.

,,Þú gengur einn um stíginn, leggst í grasið
og heyrir fótatak þúsundanna að baki
trjánna, hlustar, leitar einnar raddar
en nemur aðeins hjartslátt þinn og finnur
að þú ert einn og veröldin er rödd þín
sjálfs og ríst á fætur, lyftir höfði
og skyggnist um og gengur einn um stíginn
og finnur hjartað slá í brjósti þínu
og heyrir fótatak þúsundanna að baki
hjartslætti þínum, gengur einn um stíginn
og leitar þess sem hvergi finnst, og staldrar
á götuhorni, skyggnist milli trjánna
í leit að augum sem þú hélzt í svipinn
að hefði brugðið fyrir milli trjánna,
og veizt um leið að augu þessa heims
eru augu sjálfs þín, veröldin þín rödd,
og tilgangslaust að skyggnast um og hlusta
í hverja átt, þú gengur einn um stíginn”
(Jón Óskar, Þú og veröldin)

Við erum öll atómskáld. Því öll erum brot(hætt). Samsett, að við teljum, aðeins fyrir tilstilli tímabundinna aðstæðna sem fléttað hafa saman örlagaþræði í þennan vef sem hér gefum að líta um stundarsakir. Öll erum við ævinlega að byrja aftur á byrjuninni, endurraðandi sömu stökum inní hverfular formgerðir.

Oft heyrist því fleygt að ljóðið sé dautt. Það er vitaskuld bölvuð vitleysa. Ef það er eitthvað listform sem er ódauðlegt þá er það ljóðið. Og einmitt ekki síst á þessum síðustu og verstu tímum. Okkar sam-félag er samfélag staka, eininga. Við erum sundruð. Atómískt samfélag. Hver og einn í sínu horni, bakvið skjái, bakvið allskonar formgerðir sem skýla okkar innstu og viðkvæmustu eiginleikum, okkar mannleika. Þar blómstrar eilíft ljóðið. Þessi frum-mannlega tjáning.

Ljóð eru atómísk. Ef eitthvað listform á sér framtíð á þessum brotakenndu tímum þá er það einmitt ljóðið. Öll erum við skáld. Tístandi okkar póstmódernísku örljóðum á öllum samfélagsmiðlum. Við erum réttnefnd atómskáld á öld sundrungar.

Þetta þarf ekki að vera svona. Við getum breytt því. En í millitíðinni huggum við okkur við það að það sem er eind getur ekki brotnað frekar. Hin sögulegu atómskáld vörðuðu veginn. Brotin í dag eru minni, kvarkar frekar en atóm. Okkar er að finna nýjar leiðir að smíða úr þeim.  

 

Hin misheppnuðu skáld

Hin misheppnuðu skáld

Að lesa heiminn

Að lesa heiminn