Skandali, fyrir okkur hin.

Hin misheppnuðu skáld

Hin misheppnuðu skáld

Bækur eru ekki bara stofudjásn. Þær eru heill fjölheimur af óteljandi ólíkum alheimum, tækifæri til að seilast langt umfram eigin meðvitund, snerta aðrar meðvitundir og skapa eigin sannleika á mörkum þessa tveggja.

Allt frá upphafi hefur manneskjan leitað að merkingu, reynt að skapa hana. Og alla tíð hefur hún um leið áttað sig á því að merking felst ekki síst í að reyna af veikum mætti að miðla sinni merkingu áfram. Undir niðri erum við ef til vill meðvituð um það að merking er einmitt samstarfsverkefni. Hvaða merkingu sem þú leggur í hlutina er í raun aðeins persónuleg geðveiki nema þú reynir í það minnsta að gera hana öðrum skiljanlega, og reynir um leið að skilja merkingu hins.

Þar koma bækur til sögunnar. Bókmenntir, ljóðlistin, tungumálið sjálft. Því hvað annað er tungumál en eitt asskoti langt og magnað ljóð? Tungumálið er ekki afsteypa veruleikans, né heldur skapar það veruleikann. Sannleikurinn liggur þarna einhversstaðar á milli. Milli náttúrulýsingar og hugtakasköpunar, þar sem skilgreiningin ráfar villt en skilur eftir sig slóð brauðmola fyrir aðra að fylgja.

Því eru allir skáld þegar á reynir. Og öll skáld eru misheppnuð, að því leyti sem vera ber. Hversu hrikaleg örlög það væru líka að eiga síðasta orðið! Að fullkomna skilgreininguna, ljúka við orðabókin. Að tortíma óteljandi alheimum! Sem betur fer er það óvinnandi vegur. En leiðin þangað er gjöfulli en nokkur annar ferill.

Því tungumálið er um leið endurvarp meðvitundar. Meðvitundar sem sjálf er samvinna. Ekkert og engin er til í einangrun, meðvitund er eintala og munurinn á mér og þér er nær því að vera munurinn á frönsku og mandarín heldur en munurinn á sandkorni og stjörnuþoku. Við erum tvær hliðar sama penings, við yrkjum saman ljóð rétt einsog spegilmynd þín hermir eftir þér án þess að vera þú.

Lestu mig og ég les þig. Bækur eru ekki bara stofudjásn. Bækur eru leið mín að skilja mig með þínum augum, að lesa þína vitund, sjá hvort upp kemur hjá þér fiskur eða skjaldarmerki. Sömuleiðis segir það sem ég skrifa þér það sem þú þarft að vita, ekki um mig heldur sjálfan þig. Sjáðu þig með mínum augum og saman skulum við skapa merkingu, skapa sannleika sem er meira en bara við.

Verum misheppnuð skáld saman. Reynum að skilja á meðan við viðurkennum ómöguleika þess. Aðeins með því að mistakast tekst okkur stíga annað skref.

Ægir Þór

Allir eru eyland (Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson)

Allir eru eyland (Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson)

Hver voru atómskáldin?

Hver voru atómskáldin?