Skandali, fyrir okkur hin.

Allir eru eyland (Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson)

Allir eru eyland (Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson)

 Umfjöllun um Einmunatíð eftir George Mackay Brown,
í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar


Útgefandi: Dimma

235 bls.

Stjörnugjöf: 4.5/5

 

Sumarið telst seint til vertíðar bókaútgefenda, sem þá eru ýmist í óðaönn við að ganga frá handritum öndvegisskálda fyrir jólabókaflóðið, eða þá með tölvuna í frystikistunni meðan þeir njóta sumarfrís. Sjálfum finnst mér gott að grípa til sígildra bókmennta yfir vor- og sumartímann, endurlesa gamlar uppáhaldsbækur eða sökkva mér djúpt í höfunda sem sofa vært undir ryki tímans. Í þetta sinn var ég einmitt að lesa Dickens eftir örstutta dvöl í London skömmu fyrr. Á einum minna orlofsdaga lagði ég leið mína, sem fyrr, í bókaverslun. Þar rakst ég smásagnasafnið Einmunatíð (A Time to Keep) eftir Orkneyjarskáldið George Mackay Brown (1921-1996), í nýrri þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, en hún kom út á frummálinu, ensku, árið 1968.

Bókin hefði kannski ekki vakið athygli mína ef ekki hefði verið fyrir Gyrði nokkurn Elíasson. Annars vegar skrifaði hann um Mackay Brown fyrir þónokkrum árum og prentaði í greinasafninu Undir leslampa; hins vegar man ég glöggt að persóna í verðlaunabókinni Milli trjánna, sem er á siglingu frá Færeyjum til Orkneyja, hefur eina af bókum Mackay Browns í farteskinu. Og ég er það einfaldur maður að ef höfundar eru „Gyrðisvottaðir“, þá gef ég þeim séns.

 

*

 

Ég keypti bókina, tók mér frí frá kolareyk og léttivögnum nítjándu aldar Lundúna, og leit við í saltrokinu í Hafnarvogi á Orkneyjum (skálduð útgáfa af Stromness, þar sem höfundur fæddist og lést, nánast án þess að hafa stigið fæti á nokkrum öðrum stað í millitíðinni), þar sem regn fellur á steinbryggjur, kotbændur yrkja saltþvegnar jarðir og leggja humargildrur undir dröngum og skerjum; þar sem norskir hvalveiðimenn þamba viskí í landlegum, spila fjárhættuspil, slást og hórast meðan skip þeirra liggur kannski strandað undir sjávarhömrum og löðrið vinnur á því.

Sögurnar eru tólf talsins og teljast ugglaust til raunsæissagna ef notast skal við þess háttar flokkunarkerfi. Í flestum sögum er persónum og atburðum lýst utanfrá, úr temmilegri fjarlægð, og fær lesandi þá tilfinningu að allir séu eyland. Að vísu er titilsagan, „Einmunatíð,“ og síðasta saga bókarinnar, „Auga fellibylsins,“ sagðar í fyrstu persónu. Í þeim fær lesandi að skyggnast betur í sálarlíf sögumanns, en þar blæs oftar en ekki nöpur hafgola, mettuð salti, einsemd og breyskleika.

George Mackay Brown býr yfir þeim öfundsverða eiginleika rithöfunda að geta dregið heila sögu saman í einni setningu; t.a.m. hefst sagan „Skínandi skóflan“ á þessum orðum: „Þennan vetur var grafarinn sá maður sem átti mest annríkt á eyjunum.“ (bls 171)

Þetta er stysta saga bókarinnar (4 bls.) en upphafssagan, „Selja,“ er sú lengsta (45 bls.) „Selja“ er hugsanlega besta saga bókarinnar, listilega vel smíðuð frásögn um unga stúlku, Selju, sem býr í húsi skósmiðsins á bryggjunni og selur líkama sinn fyrir brennivín.

Að mínu mati eru lengri sögurnar betri en þær styttri, enda var Mackay Brown hæfileikaríkur skáldsagnasmiður, þó svo smásögur og ljóð séu mest áberandi í höfundarverki hans (hann var með eindæmum afkastamikill höfundur; 6 skáldsögur, 9 sagnasöfn, 10 ljóðasöfn, 2 leikrit og handfylli greinasafna, barna- og endurminningabóka, þ.á.m. líklega þekktasta verk hans, For the Islands I Sing, sem kom út 1997, ári eftir lát hans). En þó vil ég árétta að stuttu frásagnirnar eru mikilvægar inni á milli stærri sagnanna, jafnvel nauðsynlegt andrými áður en haldið er í aðra lengri ferð um eyjarnar köldu.

 

*

 

Einsog títt er með góð smásagnasöfn eru sögurnar sjálfstæðar en mynda þó einstaka heild. En í þessu tilfelli hanga þær þó ekki einungis saman á efnistökum, umhverfi og andrúmslofti, heldur bregður stundum fyrir kunnuglegum persónum sem spila stærri hlutverk í öðrum sögum, og mætti því með sanni kalla bókina „sagnasveig“ vilji maður slá um sig með slíkum skilgreiningum.

Meiri hluti sagnanna gerist í samtíma Mackay Browns, þ.e. á fyrri hluta eða um miðbik 20. aldar, en fáeinar sögur gerast fyrr, jafnvel alveg aftan í svartri forneskju. Þessar sögur eru náskyldar munnmælasögum og minnir að miklu leyti á bókmenntaarf Íslendinga – enda var Mackay Brown mjög heillaður af Íslandi og Íslendingasögum, þótt hann hafi aldrei þorað að ferðast hingað. Raunar er margt annað í lífsbaráttu eyjaskeggjanna skosku sem minnir á Ísland fyrri tíma, og hef ég þá talið margt að því upp hér að framan; fiskerí og heyskapur, fátækt og einsemd, drykkja, skáldskapur o.s.frv.

Stíllinn í sögunum er tær einsog bergvatn, tálgaður og afar fagur; þar kemur vandlega unnið starf þýðandans vel í ljós. Ég hef ekki borið frumútgáfuna saman við þýðingu Aðalsteins Ásbergs, en ég einfaldlega nenni því ekki; ég treysti samvisku nafna míns fullkomlega, enda er íslenski textinn í bókinni einstaklega fallegur. Aðalsteinn Ásberg hefur áður þýtt bók eftir Mackay Brown, ljóðasafnið Vegurinn blái, árið 1998.

Svo ég minnist nú aftur á okkar ástkæra Gyrði, þá er morgunljóst að George Mackay Brown hefur haft nokkur áhrif á hann sem stílista. Sögur þess síðarnefnda eru þó yfirleitt lengri en Gyrðis, sem gefur rými fyrir fleiri atburði og ríkari efnistök, og oft standa persónur Mackay Browns frammi fyrir ýmsum siðferislegum spurningum. Blessunarlega er hann þó enginn siðgæðispostuli – þó hann hafi að sögn verið mjög trúaður maður – heldur er þessum flækjum varpað fram á afar fágaðan hátt. Og það sem mikilvægast er, að mínu mati, skilur hann lesandann aðeins eftir með spurninguna til þess að hugleiða, en ekki svarið sjálft.

Gott dæmi um þetta má finna í síðustu sögu bókarinnar, „Auga fellibylsins,“ þar sem rithöfundur nokkur leigir kjallaraíbúð hjá rosknum hjónum. Eiginmaðurinn er drykkfelldur og beitir ýmsum klækjabrögðum, jafnvel hótunum, til þess að fá sögumann til að versla vín fyrir sig, en eiginkona mannsins biður sögumann sérstaklega að gera það ekki, að hann vilji nú ekki bera ábyrgð á dauða sjúks manns með því að færa drykkjumanni brennivínsflösku; þannig verður aðalpersónan leiksoppur í köldu stríði meðvirks hjónabands.

Með þessari nálgun minna sögur Mackay Browns um margt á sögur rússneska sagnameistarans Antons Tsjekovs. Og það er kannski við hæfi að enda á þessum orðum; ef þér er líkt við Tsjekov, þótt það sé aðeins af leikmanni einsog mér, þá kanntu að skrifa smásögu.

 

Reykjavík í ágúst 2019,
Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson

Hin misheppnuðu skáld

Hin misheppnuðu skáld